Siðareglur

Inngangur

Hestamannafélagið Hringur er íþrótta- og æskulýðsfélag. Markmið félagsins er að auka samhug og samheldni félagsmanna, veita félagsmönnum aðgang að fræðslu og þroskandi viðfangsefnum.Markmiðið með setningu siðareglna félagsins era ð stuðla að því að samskipti og vinnubrögð á vettvangi félagsins einkennist af virðingu, heilindum, sanngirni og réttlæti. Siðareglurnar leggja grunninn að þeirri starfsemi sem fram fer í félaginu.

Siðareglur

 Foreldri/forráðamaður, hafðu ávallt hugfast að:
1. Barnið þitt er í íþróttum vegna eigin ánægju en ekki til að gleðja þig.

2. Hvetja barnið þitt til þátttöku í hestaíþróttum, ekki þvinga það.

3. Hvetja barnið þitt til að fara eftir og virða reglur íþróttanna og að leysa deilur án fjandskapar  eða ofbeldis.

4. Styðja og hvetja öll börn og ungmenni – ekki bara þín eigin. 

5. Vera börnum fyrirmynd í því að taka ósigri af æðruleysi, taka sigri hrokalaust og sýna öðrum  keppendum kurteisi.
6. Bera virðingu fyrir störfum þjálfarans/reiðkennarans, ekki reyna að hafa áhrif á störf hans meðan á leik eða keppni stendur
7. Börn læra mest af því að framkvæma. Lærðu að meta góða frammistöðu allra barna í hópnum.

8. Læra að meta þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu því án þeirra hefði barn þitt ekki möguleika að stunda æfingar og keppni með félaginu.

9. Virða rétt hvers barns, óháð kyni, kynstofni eða trúarbrögðum.
10. Taka því ávalt alvarlega ef barn þitt eða önnur börn leita til þín vegna vanlíðunar tengdri íþróttaiðkun sinni eða ef þú telur þig verða áskynja um vanlíðan hjá barni á æfingu eða í keppni.

Iðkandi - Þú ættir að:
1. Gera alltaf þitt besta.

2. Sýna ávallt öðrum virðingu, jafnt í meðbyr sem mótbyr.

3. Virða alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika í hestaíþróttum.

4. Hafa heilbrigði alltaf að leiðarljósi og forðast að taka áhættu varðandi heilsu þína
og/eða hestsins.
5. Bera virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra óháð kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð.

6. Forðast neikvæð ummæli og/eða skammir um samherja, keppinauta, dómara, þjálfara, starfsmenn félagsins og sjálfboðaliða.

7. Vera heiðarlegur og opinn í samvinnu við þjálfara/reiðkennara og aðra sem styðja þig.

8. Taka sjálfur höfuðábyrgð á framförum þínum og þroska og neyta aldrei ólöglegra lyfja til að bæta árangur þinn og/eða hestsins.
9. Vera ávallt til fyrirmyndar varðandi framkomu, jafnt utan vallar sem innan.
11. Samþykkja aldrei eða sýna ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.

12. Bera virðingu fyrir félagsbúningi þínum og merki félagsins

Þjálfari/reiðkennari:
1. Meðhöndlaðu alla iðkendur á einstaklingsgrunni og á þeirra eigin forsendum.

2. Styrktu jákvæða hegðun og framkomu.

3. Sjáðu til þess að þjálfun og keppni sé við hæfi iðkenda bæði knapa og hests með tilliti til aldurs,  reynslu og hæfileika.
4. Haltu á lofti heiðarleika innan hestaíþróttarinnar. 

5. Viðurkenndu og sýndu virðingu þeim ákvörðunum sem dómarar taka.

6. Fáðu iðkendur til að vera með í ákvörðunum sem tengjast þeim og kenndu þeim að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í hestaíþróttinni.

7. Vertu réttlátur, umhyggjusamur og heiðarlegur gagnvart iðkendum þínum.

8. Viðhafðu jákvæða og uppbyggjandi gagnrýni og taktu gagnrýni á sama hátt.
9. Settu ávallt á oddinn heilsu og heilbrigði iðkenda þinna og varastu að setja þá í aðstöðu sem ógnað gæti heilbrigði þeirra eða hestsins.

10. Sýndu athygli og umhyggju þeim iðkendum sem orðið hafa fyrir meiðslum.

11. Leitaðu samstarfs við aðra þjálfara/reiðkennara og sérfræðinga þegar þess þarf.

12. Viðurkenndu rétt iðkandans til þess að leita ráða frá öðrum þjálfurum.

13. Samþykktu aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.

14. Beittu (iðkanda) aldrei kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu áreiti.

15. Taktu aldrei að þér akstur iðkenda eða hests hans, nema með beinu leyfi foreldra/forráðamanna.
16. Vertu meðvitaður um hlutverk þitt sem fyrirmynd, bæði utan vallar og innan.

17. Talaðu alltaf gegn notkun ólöglegra lyfja, tóbaks og áfengis. 

18. Komdu eins fram við alla iðkendur, óháð kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum  og kynhneigð.

19. Hafðu ávallt í huga að þú ert að byggja upp fólk, bæði líkamlega og andlega.

20. Notfærðu þér aldrei aðstöðu þína sem þjálfara/reiðkennara til að uppfylla eigin metnað á kostnað iðkandans.

Stjórnarmaður/starfsmaður:
1. Stattu vörð um anda og gildi félagsins og sjáðu um að hvorttveggja lifi áfram meðal  félagsmanna

2. Komdu fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum,  litarhætti og kynhneigð.

3. Hafðu lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri.

4. Haltu félagsmönnum vel upplýstum og gerðu félagsmenn að þátttakendum í ákvarðanatöku  eins og hægt er.

5. Vertu ávallt til fyrirmyndar varðandi hegðun og framkomu, bæði innan félags og utan.

6. Taktu alvarlega þá ábyrgð sem þú hefur gagnvart félaginu og iðkendum.

7. Hafðu ávallt í huga að í félaginu er verið að byggja upp fólk.

8. Rektu félagið ávallt í samræmi við lög og góða reikningsskilavenju.

9. Notfærðu aldrei stöðu þína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins.

 Samþykkt á aðalfundi Hestamannafélagsins Hrings 28 mars 2015