Lög félagsins

Lög Hestamannafélagsins Hrings

1. grein

Félagið heitir Hestamannafélagið Hringur. Heimili þess og varnarþing er Dalvíkurbyggð. Félagið er aðili að LH og UMSE sem er aðili að ÍSÍ, og er því háð lögum, reglum og samþykktum þeirra.

2. grein

Tilgangur félagsins er:
1. Að stuðla að réttri og góðri meðferð hesta og efla áhuga og þekkingu á ágæti þeirra og íþróttum.
2. Að stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar almennrar hestamennsku.
3. Að bæta og auka reiðvegi um félagssvæðið og tengingu við nálægar byggðir.
4. Að þesum tilgangi hyggst félagið ná með því m.a. að:
                a) Fræða félagsmenn og aðra með námskeiðum, fyrirlestrum og myndasýningum um eðli hesta, sköpulag og
                    rétta meðferð þeirra.
                b) Að halda og vanda sem best til kappreiða, íþróttamóta, góðhestakeppni og sýninga.
                c) Leita stuðnings opinberra aðila til umbóta á reiðvegum þeim sem eru enn til og til að opna nýjar reiðleiðir.
                d) Stuðla að uppbyggingu íþróttamannvirkja sem nýtast til iðkunar, æfinga og keppni.

3. grein

Félagsmenn í hestamannafélaginu Hring geta allir orðið.  Inngöngubeiðni skal vera skrifleg eða rafræn og öðlast umsækjandi full félagsréttindi þegar hann hefur greitt árgjald til félagsisn. Félögum sem skulda félagsgjöld eftir eindaga er óheimilt að koma fram fyrir félagið út á við. Þeir félagar sem verða sextán ára á almanaksárinu og yngri greiða ekki árgjald og hafa hvorki kosninga rétt né eru kjörgengir. Ungmenni 17 – 21 ára greiða ½ árgjald og teljast fullgildir félagar. Séu hjón eða fólk í sambúð sem skráð eru með sama lögheimili, fullgildir félagar, skal annar makinn greiða ½ árgjald.  Félagar, 70 ára og eldri, skulu undanþegnir árgjaldi en halda félagsréttindum sínum.

4. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Árgjald félagsmanna skal ákveðið fyrir næsta starfsár á hverjum aðalfundi. Skal það greitt fyrir 1. júní. Félagar sem skulda árgjald fimm mánuðum eftir eindaga missa félagsréttindi sín þar til skuld er greidd. Þeim sem ekki hafa greitt félgasgjöld um áramót má víkja úr félaginu. Óski félagsmaður eftir úrsögn úr félaginu, skal það gert skriflega eða rafrænt til stjórnar félagsins.

5. grein

Stjórn félagsins skipa fimm menn: formaður, ritari, gjaldkeri, varaformaður og einn meðstjórnandi. Varamenn skulu vera tveir. Kjörtímabil skal vera tvö ár. Kosningu skal hagað þannig að formaður er kosinn beinni kosningu, að örðu leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Kjósa skal einn aðalmann og tvo varamenn sama ár og formaður er kosinn og þrá aðalmenn í stjórn hitt árið. Formaður er famkvæmdarstjóri félagsins og boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Skylt er honum einnig að boða stjórnarfundi, ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórn félagsins getur þó ákveðið að annar stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins gegni starfi framkvæmdastjóra. Stjórn félgsins ber ábyrgð og hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins og einstakra nefnda. Nefndum er óheimilt að stofna til fjárskuldbindinga án samþykkis stjórnar félagsins. Félagsmenn bera ekki fjárhagslega ábyrgð umfram greiðslu árgjalds. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins. Aðalfundur kýs tvo bókhaldsfróða menn til þess að endurskoða reikninga félagsins. Endurskoðendurnir þurfa ekki að vera félagar í Hring.

6. grein

Aðalfundur skal haldin eigi síðar en 31. mars ár hvert, og skal hann boðaður með auglýsingu í tölvupósti, á samfélagsmiðlum og í félagsaðstöðu, með minnst viku fyrirvara. Séu fyrirhugaðar lagabreytingar þarf að tilgreina þær í fundaboðum með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar er:
1. Formaður setur fund og tilnefnir fundarstjóra og fundarritara
2. Inntaka nýrra félaga
3. Skýrsla stjórnar
4. Afgreiðsla reikninga
5. Lagabreytingar ef um er að ræða
6. Kosningar:
    a) Stjórn og varastjórn
    b) Tveir endurskoðendur
7. Önnur mál

 

7. grein

Stjórn félagsins skal boða til haustfundar ár hvert fyrir 1.nóvember, þar skulu nefndir komandi starfsárs tilkynntar. Að öðru leiti boðar stjórn félagsfund eins oft og þurfa þykir. Sama er, ef minnst tíu félagar sækja þess skriflega og tilgreina fundarefni. Fundur skal boðaður með tveggja daga fyrirvara og er hann þá lögmætur ef tíu félagsmenn sækja hann. Sé fundur ekki lögmætur skal boða til hans á ný og er hann þá lögmætur ef sjö félagsmenn mæta. Ef færri en sjö mæta skal enn boða til fundar og er hann þá lögmætur án tillits til fjölda fundarmanna.

8. grein

Um aðild að UMSE og LH

Formaður félagsins er sjálfkjörin á ársþing UMSE og LH. Aðrir fulltrúar félgsins skulu valdir af stjón hvers tíma. Úrsögn úr UMSE og/eða LH getur lögmætur aðalfundur samþykkt með 2/3 -tveir þriðju- greiddra atkvæða.

9. grein

Stjórn félagsins ber að varðveita af fyllstu gaumgæfni öll þau skjöl og önnur gögn sem veita heimildir um störf félagsins og eignir þess, svo sem nákvæma félagsskrá, reikninga, bréfaskipti.  Upplýsingar um þátttöku og árangur félagsmanna og hesta þeirra á mótum má nálgast á Sportfeng, worldfeng og/eða á heimasíðu félagsins.  Skal vera hlekkur á heimasíðu félagsins sem vísar í viðeigandi miðla.

10. grein

Keppnisreglur skulu vera samkvæmt samþykktum Landssambands hestamannafélaga.  Þó er heimilt að vera með mót á vegum félagsins þar sem ekki er keppt eftir þessum reglum til dæmis firmakeppnir osfv.

11 grein

Stjórn félagsins er heimilt að kjósa heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess.

12 grein

Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi sem er löglegur. Lagabreytingar, sem félgasmenn óska eftir að bornar verði upp á aðalfundi, skal senda stjórn félagsins fyrir 31. desember næstan fyrir aðalfund. Ber stjórninni að gera grein fyrir slíkum tillögum í fundarboði.

13. grein

Ef slíta skal félaginu, verður það einungis gert á fundi, þar sem mættir eru minnst 3/4 -þrír fjórðu- hlutar atkvæðabærra félagsmanna, og verður það þá því aðeins gert, að 2/3 -tveir þriðju- hlutar fundamanna greiði því atkvæði. Að öðrum kosti skal boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt ef 2/3 -tveir þriðju- hlutar atkvæðabærra fundarmanna greiða því atkvæði, án tillits til þess, hve margir eru mættir á fundinn. Verði félaginu þannig slitið skulu eignir þess afhentar Dalvíkurbyggð til vörslu, þar til nýtt félag með svipuðum markmiðum og Hestamannafélagið Hringur hafði, verður stofnað í sveitarfélaginu. Skulu eignirnar þá afhendast því félagi til eignar, enda hafi bæjarráð Dalvíkurbyggðar kannað vilja og getu hins nýja félags til að takast á hendur við slíkan rekstur.

14 grein

Með lögum þessum eru úr gildi fallin eldri lög félagsins.

                              ( Samkvæmt breytingum frá aðalfundi sem haldin var  31.mars. 2014.)

                               Samkvæmt breytingum frá aðalfundi sem haldin var 23. apríl 2019.