Hrossaræktarf. Svarfaðardals : Lög félagsins

Lög Hrossaræktarfélags Svarfaðardals og nágrennis

 1.grein

Félagið heitir Hrossaræktarfélag Svarfaðardals og nágrennis.  Starfssvæði þess er Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð. Heimili þess og varnarþing hið sama og gjaldkera  hverju sinni. Félagið er aðili að Hrossaræktarsamtökum Eyfirðinga og Þingeyinga (HEÞ).

2. grein

 Félagsmenn geta allir orðið sem þess óska og ekki eru aðrar takmarkamir á þáttöku í félagsstarfi en þær sem ytri aðstæður kynnu að hamla. Æski einhver þess að gerast félagsmaður í félaginu skal það borið undir næsta stjórnarfund. Sé umsækjandi samþykktur     öðlast hann öll félagsréttindi með greiðslu árgjalds önnur en atkvæðisrétt á félagsfundum.            Atkvæðisrétt öðlast hann þegar löglegur félagsfundur hefur samþykkt umsóknina. Hver félagi skal greiða árgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi hverju sinni

3. grein

Félagið starfar samkvæmt gildandi búfjáræktarlögum.

 4. grein

Megintilgangur félagsins er ræktun reiðhrossa og byggist á eftirtöldum atriðum:

  1. Notaðir skulu bestu fáanlgu tamdir kynbótahestar til undaneldis. Þó má í smáum stíl nota vel ættaða og efnilega unghesta, hafi þeir hlotið meðmæli fagstjóra í hrossarækt sem er skipaður af Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins.
  2. Stefnt skal að því að nota eingöngu tamdar og ættbókafærðar hryssur til undaneldis.
  3. Félagið komi sér upp girðingu fyrir stóðhest og aðstöðu til að geyma ungfola og  beyti sér  fyrir því, að ársgamlir óvanaðir folar gangi ekki lausir.
  4. Félagið beiti sér fyrir því að glæða áhuga fyrir hrossarækt á svæðinu, góðri fóðrun og meðferð hrossa.
  5. Félagið beiti sér fyrir sem bestri ráðanautaþjónustu í hrossarækt fyrir félagsmenn.

 5. grein

 Árgjald félagsmanna skal ákveðið fyrir næsta starfsár á hverjum aðalfundi. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Eindagi árgjalda skal vera 1. maí . Ef árgjald er ógreitt á eindaga missir viðkomandi félagsmaður öll félagsréttindi þangað til árgjald er að fullu greitt. Ef árgjald er ógreitt 31. desember fellur viðkomandi út af félagsskrá og það tilkynnt á næsta aðalfundi. Sama á við hafi félagsmaður sagt sig úr félaginu. Viðkomandi getur ekki öðlast félagsréttindi nema eldri skuld sé greidd. Brjóti félagar alvarlega af sér gegn lögum og reglum félagsins, er stjórn þess heimilt að víkja honum úr félaginu. Brottviknum félaga er heimilt að áfrýja máli sínu til aðalfundar.

 6. grein

Félagið beiti sér fyrir skynsamlegri nýtingu beitilands og leggur áherslu á að landi sé ekki ofboðið með óhóflegri hrossabeit.

 7. grein

 Stjórn félagsins skipa þrír einstaklingar: formaður, ritari og gjaldkeri og þrír til vara. Á aðalfundi félagsins eru formaður, ritari, gjaldkeri og varamenn þeirra kosnir skriflegri og óbundinni kosningu hver fyrir sig. Allir eru þeir kjörnir til þriggja ára.

Úr stjórninni gangi formaður, gjaldkeri, ritari og varamenn þeirra hver sitt árið.

Formaður er fulltrúi félagsins út á við, þar með talið sjálfkörinn fulltrúi félagsins á aðalfund HEÞ og hefur ásamt félagsstjórninni yfir umsjón með öllum framkvæmdum þess eins og ákvörðun aðalfundar og lög félagsins mæla fyrir. Formaður boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Skylt er honum að boða stjónarfundi ef aðrir í stjórn óska þess. Stjórnarfundir eru lögmætir ef minnst tveir/þriðju stjórnar eru mættir. Formaður stýrir félagsfundum, eða lætur kjósa fundarstjóra .

Ritari skal halda gerðarbók á fundum, sér um skýrslur um framkvæmdir félagsins, auglýsingar og þess hátta fyrir hönd félagsins.

Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum félagsins, annast innheimtu, reikningshald fyrir félagið og greiðir reikninga.

Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga félagsins til eins árs.

8. grein

 Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en 1. apríl ár hvert.og skal hann boðaður með minnst þriggja daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar sé:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Formaður leggur fram og skýrir skýrslu stjórnar um starfssemi félagsins á liðnu ári
  4. Gjaldkeri leggur fram og skýrir reikninga félagsins til samþykktar.
  5. Lagabreytingar, hafi þær verið fram lagðar.
  6. Ákvörðun árgjalds samkv 5. grein.
  7. Kosning stjórnar samkvæmt 7. grein.
  8. Kosnir tveir skoðendur reikninga samkvæmt 7 grein.
  9. Kosninga fulltrúa á aðalfund HEÞ
  10. Önnur mál.

 9. grein

Stjórn félagsins boðar félagsfundi eins oft og þurfa þykir. Sama ef fimm félagar æskja þess skriflega og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara.

Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað og  ræður einfaldur meirihluti atkvæða öllum málum á fundum félagsins, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

Formaður eða staðgengill hans setur félagsfundi og lætur kjósa fundarstjóra í byrjun fundarins. Hinn kjörni fundarstjóri úrskurðar í byrjun fundarins hvort löglega hafi verið til hans boðað og hvort hann sé lögmætur. Sé fundur ekki lögmætur má boða til hans að nýju á venjulegan       hátt og er hann lögmætur án tillits til þess hversu margir eru mættir

 10. grein

 Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi, þar sem mættir eru minnst 1/5 -einn fimmti hluti- lögmætra félaga,  og 2/3 -tveir þriðju- greiddra atkvæða samþykkja breytinguna, Mæti of fáir, skal boða til framhaldsaðalfundar og öðlast þá tillögur gildi, ef 2/3 -tveir þriðju- hlutar fundarmanna samþykkja þær án tillits til fundarsóknar. Lagabreytinga skal geta í fundarboði.

 11. grein

 Heimilt er meirihluta stjórnar að bera fram á aðalfundi tillögu um kjör heiðursfélaga. Heiðursfélagar geta þeir einir orðið, sem sýnt hafa frábæran áhuga og dugnað í störfum sínum til eflingar félaginu og markmiðum þess.

Á lögmætum aðalfundi þarf 2/3 atkvæða til þess að kjör heiðursfélaga sé lögmætt.

 12. grein

Til slita á félaginu þarf samþykki 2/3 hluta mættra félagsmanna á aðalfundi. Verði félagi slitið skal stjórnin ljúka skuldaskilum fyrir félagið. Sé um eignir að ræða skulu þær ávaxtast í umsjá Búnaðarfélags Svarfdæla þar til nýtt félag sama eðlis hefur verið stofnað á  starfssvæði þess gamla. Renna þá eignirnar óskiptar til hins nýja félags.

LÖG ÞESSI SAMÞYKKT Á AÐALFUNDI  12 mars 2004.

(Breytingar   samþykktar á  aðalfundi  01.04.14)