Að loknu Stórmóti Hrings

Nú er Stórmóti Hrings lokið, það komu upp smá hnökrar í hljóðkerfi á laugardegi og tímatökubúnaði í  gæðingaskeiði og er það aðdáunarvert hversu vel keppendur tóku þessum truflunum og einnig ber að þakka þeim sem voru með auka hljóðkerfi tilbúið á staðnum og tengdu okkur strax inná það og löguðu tímatökubúnað áður en 100 metra skeiðið var á sunnudeginum.  Það er ekki sjálfgefið að vera með valinn mann í öllum stöðum eins og mér finnst við í Hring vera svo heppin að hafa. Hér gengu menn í sín verk og gerðu þau vel ásamt því að leysa af í öðrum þegar þess þurfti og það jafnvel óbeðnir og er það aðdáunarvert. 
Ég vil þakka keppendum kærlega fyrir komuna án þeirra yrði mótið ekki svona sterkt og mátti hér sjá sýningar og skeiðspretti sem sæmt hefðu sér á hvaða móti sem er.  Það er mjög gaman fyrir svona lítið félag að geta verið með svona sterkt mót og til þess að það verði þarf margt að smella saman.  Fyrst ber að nefna viðmót heimamanna, þeir taka vel á móti gestum og keppendum mótsins.  Svo er aðstaða fyrir öll keppnishross á sama svæði og lítil reiðhöll til upphitunar ef fólk vill og standardin hefur verið að hafa fimm dómara til að dæma á mótinu.  
Svo er auðvitað öll sjálfboðavinnan sem unnin er bæði fyrir mót, til að gera svæðið sem snyrtilegast og vellina eins góða og hægt er og svo auðvitað sú gríðarlega vinna sem unnin er alla helgina. Við erum komin með ótrúlega góð gengi í bæði ritarastörf og í veitningastörf ásamt öllum vallarstarfsmönnunum.  En allt þetta verður til þess að við fáum þessa frábæru keppendur og góðu hesta hingað til okkar og keppa hér í hinum ýmsu flokkum með okkur heimamönnum.

Ég vil að lokum þakka öllum fyrir samveruna um helgina og vonandi verðum við öll saman að ári.

 

Lilja Björk Reynisdóttir

Form. Hestamannafélagsins Hrings